Árshátíð og fleira.

Hæ gott fólk,

Loksins settist ég aftur við bloggið. Ég hef verið einstaklega latur við að krota síðustu vikuna.

Síðustu dagar hafa verið bara nokkuð viðburðaríkir og skemmtilegir. Ég fór á árshátíð skólans síðasta föstudag og ég hef bara aldrei lent í öðrum eins mannfjölda á einu balli. Skólinn er nokkuð vígalegur og í gegnum aðalbygginguna er langur gangur sem er á að giska 6-700 metra langur. Hann var fullur af fólki og svo voru mötuneytin full af fólki og þar voru annars vegar hljómsveit að spila og svo plötusnúður. Á torginu sem er stórt svæði fremst í byggingunni, nú eða aftast eftir því hvernig á blessaða bygginguna er litið, var einnig hljómsveit að spila.
Ég myndi lauslega skjóta á að hér hafi verið á milli 5 til 6 þúsund manns þegar mest var. Ansi magnað. Anyway, virkilega gaman og þá sérstaklega gaman að sjá klæðaburð samkomugesta. Sumir voru tja hvað skal segja ... overdressed og aðrir eins og þeir væru nýkomnir af vakt. Skemmtilegt allt saman. Ég var vissulega þarna einhvers staðar mitt á milli.

Föstudagurinn byrjaði mjög vel. Við félagarnir í hópnum byrjuðum á að fara á fund með fyrirtæki, fasteignasölu hér á Fjóni, og spjölluðum við þá um að skrifa smá verkefni í samstarfi við þá. Þeir tóku einstaklega vel í það og ég held að þetta verði bara þrælgaman.
Eftir fundinn fórum við upp í skóla í tíma og svo eftir tímann fórum við strákarnir í bekknum út að íþróttasvæðinu og fórum í "flagball" eða milda útgáfu af amerískum fótbolta. Eitthvað voru reglurnar á reiki en við skemmtum okkur konunglega. Svo fórum við í smá fótbolta á eftir. Grasið var svo blautt að ég einbeitti mér að því að fullkomna skriðtæklingstækni mína og var það alveg einstaklega gaman :)
Eftir boltann hittumst við svo á pöbb og fórum þaðan heim til eins úr bekknum og borðuðum þar áður en við kíktum á ballið fyrrnefnda upp í háskóla.

Börnin voru hjá mér seinni hluta laugardags og í gær. Mjög gaman og tilheyrandi aríur teknar þegar sá yngsti hélt skríkjandi á höfuðleðri systkina sinna. Hann er all svakalegur og þau tvö eldri hafa hreinlega ekkert í hann.

Dísa er búinn að kynnast stelpu á hæðinni fyrir neðan og lék töluvert við hana um helgina. Ég sá mér leik á borði og bauð foreldrum hennar í kaffi í gær og þetta virðist vera alveg indælisfólk. Þau eiga tvær dætur, 8 ára og ég held 5 ára. Þau hafa búið þarna í ein 6 ár og líkar einstaklega vel og finnst hverfið vera gott. Ég er nú ekki frá því að ég sé sammála því.

Já, svo var bara helgin búin áður en ég vissi af. Ekki mikið lært þessa helgi, en bæti úr því í dag ;)

Hmm, já hvað var það meira...jú sá Dani leggja Grikki að velli í fótbolta. Ágætisleikur og Danir eiga enn smá séns á að komast áfram á HM 2006 í Þýskalandi, en þurfa að treysta á Albani. Albanir mæta Tyrkjum og verða að ná stigi til að Danir eigi séns...ekki mjög bjartsýnn fyrir hönd þeirra rauðu :( en allt getur gerst á velli með allt of stór mörk, allt of lítinn bolta og allt of marga leikmenn.

Ég er núna upp í háskóla að læra...tja blogga eins og er. Hef fundið það að mér verður meira úr verki hér en heima.

Ég bið að heilsa í bili,

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Gott að heyra að allt gengur vel í Odense. Mikið væri nú gaman að kíkja á þig; vildi að þú værir í Köb ;)
Kv.
G

Vinsælar færslur